Dularfullur listi í umferð í Vestmannaeyjum
Deilt um prófkjör eða röðun á lista Sjálfstæðismanna - Listi með nöfnum meintra stuðningsmanna Elliða í umferð
06:00 › 19. janúar 2018
Bæjarstjóri Elliði Vignisson hefur verið
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum frá árinu 2006 og gefur kost á sér til að
halda áfram í kosningunum í vor.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Leynilistinn Listi yfir meinta stuðningsmenn
Elliða í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins gengur nú manna á milli. Á
hann að sýna þá 28 sem Elliði á að hafa smalað á fund fulltrúaráðsins
til að koma í veg fyrir prófkjör og sýna fram á tengsl þeirra sem eiga
sæti í fulltrúaráðinu. Enginn sem DV ræddi við vildi segja hvaðan
listinn kæmi. DV hafði samband við nokkra á listanum til að athuga hvort
hann væri marktækur, svör þeirra má sjá til hliðar.
Ester Garðarsdóttir – Á móti prófkjöri
Fjóla Margrét Róbertsdóttir – „Ég var á móti prófkjöri.“
Jarl Sigurgeirsson –„Mjög óviðeigandi að spyrja um þetta.“
Sveinn Magnússon – „Ég er ekkert heitur með eða á móti, þetta er bara niðurstaðan.“
Páll Marvin Jónsson – „Ég hefði kosið með uppstillingu á fyrri fundinum, en ég kaus með prófkjöri á síðasta fundi.“
Hildur Sólveig Sigurðardóttir – Skellti á blaðamann
Birna Þórsdóttir – „Tjái mig ekki um þetta.“
Unnur Líf - „Ég gef þetta ekki upp.“
Hjalti Kristjánsson - „Finnst það mjög óviðeigandi hjá ykkur að eltast við þetta.“
Ragnheiður Perla Hjaltadóttir - Á móti
Bragi Magnússon - Á móti
Fulltrúaráð „í vasanum“
Elís Jónsson, vélstjóri á Herjólfi, var búinn að boða þátttöku sína í prófkjöri, hann segir í samtali við DV að smalað hafi verið á seinni fundinn til að koma í veg fyrir að Elliði þyrfti að fara í prófkjör. Vill hann meina að á sínum 12 árum í bæjarstjórn væri Elliði búinn að raða samstarfsfólki sínu, fjölskyldu og mökum í fulltrúaráðið. Tillaga um prófkjör var felld með 28 atkvæðum á móti 26, einn seðill var auður og einn ógildur. Elís segir að sú tillaga hafi verið óraunhæf, of margir þyrftu að taka þátt í prófkjörinu og tíminn væri of naumur. Lagði hann því fram breytingartillögu um að 10 manns þyrfti í prófkjör í stað 14, sú tillaga var felld. Niðurstaða fundarins var að farið yrði í röðun sem gengur út á að fulltrúaráðið kýs á listann.
Vélstjóri á Herjólfi Elís Jónsson gaf kost á sér í prófkjör eftir fund fulltrúaráðsins milli jóla og nýárs, hann er ekki sáttur við niðurstöðuna.
Elliði vill konur og ungt fólk á listann
Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali
við mbl.is að hann hafi talað fyrir leiðtogaprófkjöri til að tryggja
aðkomu kvenna og ungs fólks á lista Sjálfstæðisflokksins. Bendir hann á
að í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir síðustu
alþingiskosningar þá hafi þrír karlar raðast í þrjú efstu sætin. Aníta
Óðinsdóttir, formaður fulltrúaráðsins, gefur lítið fyrir það í samtali
við DV: „Það var síðast prófkjör hér í Vestmannaeyjum árið 1990, það
hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.“ Eyverjar, félag ungra
Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, lagðist gegn prófkjöri, andstæðingar
Elliða innan flokksins segja lítið að marka þá afstöðu þar sem sonur
Elliða sé varaformaður Eyverja.
Leynilisti í umferð
Listi, sem inniheldur annað orðalag en listi Elísar, er í umferð en enginn viðmælenda DV kannast við að hafa útbúið þann lista. Listann má sjá hér til hliðar. Margir sem eru á listanum kannast við að hafa kosið á móti prófkjöri, sumir vildu ekki ræða við DV en einn bæjarfulltrúi, Páll Marvin Jónsson, sagðist hafa greitt atkvæði með því að fara í prófkjör en er sáttur við þá niðurstöðu að fara í röðum. „Þetta er leið til að sætta ákveðin sjónarmið. Það er fylking hér sem vill prófkjör og önnur fylking sem vill ekki prófkjör. Með röðun mun fulltrúaráðið, þeir sem starfa innan flokksins, fá tækifæri til að kjósa fólk á lista,“ segir Páll Marvin. Einn viðmælandi sagði að lítið væri að marka orð Elísar þar sem hann ynni fyrir Eimskip og vildi komast að í bæjarstjórn til að koma í veg fyrir að bærinn tæki yfir rekstur Herjólfs. Elís hafnar því alfarið og segist ekki hafa neitt að fela, verið væri að nota skoðanir hans um rekstur Herjólfs til að drepa málinu á dreif.Elliði hefur sagt að hann hefði verið tilbúinn að gefa kost í sér í prófkjöri ef það yrði niðurstaðan en Elís segir að það standist ekki skoðun heldur hafi Elliði beitt sér gegn prófkjöri með öllum tiltækum ráðum. Ekki er þó allt sem sýnist, viðmælendur DV draga margir í efa sýn Elísar á málin, á það líka við um viðmælendur sem tengjast ekki bæjarstjóranum. „Ástæðan fyrir því að Elliði kaus gegn því að fara í prófkjör hefur ekkert að gera með hræðslu við kjósendur, hann veit að staða sín er sterk. Þetta snýst um að gera það sem er þægilegast og koma í veg fyrir að karlar verði í öllum efstu sætunum,“ segir einn viðmælandi DV.
Páll vildi prófkjör

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
í Suðurkjördæmi, sat báða fundina og hann segir að niðurstaðan hafi
komið á óvart. Sagði hann í samtali við Vísi að hann hefði stutt það
eindregið að fara í prófkjör: „Ég tel að þetta sé afar óheppileg
niðurstaða fyrir flokkinn í Vestmannaeyjum,“ sagði Páll.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli